Fréttablaðið greindi frá kaupunum í gærmorgun en fram kemur í frétt blaðsins að það hafi heimildir fyrir því að búið sé að undirrita kaupsamning milli Kaupfélags Skagfirðinga og Kleópötru Kristbjargar um sölu á Gunnars.
Undanfarnar vikur hefur Gunnars verið í söluferli en Kleópatra Kristbjörg er eigandi félagsins. Félagið var árið 2014 lýst gjaldþrota en skömmu áður keypti Klópatra Kristbjörg vörumerki Gunnars, heimasíðu þess, markaðsefni og búnað félagsins af dætrum stofnendanna, Helenu og Nancy Gunnarsdætrum.
Gunnars ehf. var stofnað árið 1960 af hjónunum Gunnari Jónssyni og Sigríði Regínu Waage og hét fyrirtækið Gunnars majones.
Fram kemur í frétt Fréttablaðsins að um tuttugu starfi nú hjá Gunnars en kaup KS á félaginu séu háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Á meðan annist lögmannsstofan Sævar Þór & Partners umsjón með rekstri Gunnars en stofan hafi annast söluna.