Eðlan sem steingervingarnir tilheyra var líklegast yfir tíu metrar á lengd og var uppi fyrir um 125 milljónum ára.
Steingervingarnir fundust í stein á strönd á Wight-eyju en steininn hafði líklegast fallið úr kletti fyrir ofan ströndina. Beinin sem fundust voru hryggjarliðir, hlutar úr mjaðmagrindinni og útlimabein.

Chris Barker, einn þeirra sem fann steingervingana, segir í samtali við The Guardian að þrátt fyrir að beinin sem fundust séu ekki mörg sé hægt að gera ráð fyrir því að eðlan hafi verið „gríðarlega stór“.
Þorneðlan dvaldi bæði á landi og í sjó og borðaði helst fisk. Einungis tvær tegundir af þorneðlunni hafa verið nefndar, báðar eftir þeim svæðum sem steingervingarnir fundust á. Ein fannst í Marokkó en hin í Egyptalandi. Ekki er vitað hvort eðlan sem fannst á Wight-eyju af sömu tegund og þær sem hafa áður fundist.