Sport

Þjálfari bjargaði lífi sundkonu eftir að hún féll í yfirlið og sökk til botns

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anita Alvarez var hætt komin á heimsmeistaramótinu í fimmtíu metra laug í Búdapest í gær.
Anita Alvarez var hætt komin á heimsmeistaramótinu í fimmtíu metra laug í Búdapest í gær. getty/Dean Mouhtaropoulos

Þjálfari bandarísku sundkonunnar Anitu Alvarez bjargaði henni frá drukknun á heimsmeistaramótinu í fimmtíu metra laug í Búdapest í gær.

Eftir að hafa lokið sér af í úrslitum í frjálsum æfingum leið yfir hina 25 ára Alvarez og hún sökk til botns í lauginni.

Þjálfari hennar, Andrea Fuentes, var fljót að hugsa, stakk sér ofan í laugina fullklædd og bjargaði Alvarez. Hún var í kjölfarið flutt burt á börum. Fuentes greindi seinna frá því að líðan Alvarez væri góð.

„Anita er í lagi. Læknarnir könnuðu lífsmarkið og allt er í fínu lagi, hjartslátturinn, súrefnismagn, blóðþrýstingurinn og svo framvegis,“ sagði Fuentes. Hún sagðist hafa tekið til sinna ráða því sundlaugarverðirnir hafi ekki verið á tánum.

Alvarez var flutt á sjúkrahús eftir að það leið yfir hana.getty/Dean Mouhtaropoulos

„Mér leið eins og þetta hefði verið klukkutími. Ég sagði að eitthvað væri ekki í lagi. Ég öskraði á verðina að stökkva ofan í laugina en þeir náðu ekki því sem ég sagði eða skildu það ekki. Hún andaði ekki. Ég brást eins hratt við og ég gat, eins og þetta væru úrslit á Ólympíuleikunum.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fuentes kemur Alvarez til bjargar. Á úrtökumóti fyrir Ólympíuleikana í fyrra leið einnig yfir Alvarez og Fuentes þurfti að bjarga henni.

Alvarez, sem hefur unnið til fernra verðlauna á Ólympíuleikum, fékk 87.6333 í einkunn fyrir æfingar sínar í gær og lenti í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×