Breiðablik vann góðan 1-0 útisigur á Santa Coloma er liðin mættust í Andorra í fyrri leik sínum í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu. Ísak Snær fagnaði með því að setja fingurinn upp að vörum sínum og segja þeim örfáum áhorfendum sem mættir voru að róa sig.
Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Stöðvar 2 Sport, vakti athygli á fagni Ísaks Snæs á Twitter-síðu sinni og Ísak Snær hefur nú svarað.
„Kristall Máni þetta suss var fyrir þig. Aldrei fokking gult spjald. Smá æsing í þetta, takk,“ skrifar Ísak Snær á Twitter-síðu sinni en sjá má skjáskot af fagninu þar.
@KristallMani þetta sush var fyrir þig, aldrei fokking gullt, sma æsing í þetta takk https://t.co/SvbppvtlpV
— Ísak Snær Þorvaldsson (@isaks10) July 8, 2022
Kristall Máni – sem mun skrifa undir hjá norska stórveldinu Rosenborg um helgina – fagnaði marki sínu gegn Malmö á eftirminnilegan hátt. Hann jafnaði metin í 1-1 og rölti í kjölfarið að stuðningsfólki Malmö, barði sér á brjóst og lagði fingur upp að vörum sínum.
Kristall Máni fékk sitt annað gula spjald þar sem dómari leiksins taldi hann vera að „ögra“ stuðningsfólki heimaliðsins. Ísak Snær slapp hins vegar við slíka refsingu enda töluvert rólegra andrúmsloft í Andorra en Svíþjóð.
Atvikið má sjá í spilaranum hér að ofan en þar eru öll fimm mörkin úr leik Malmö og Víkings.