Fótbolti

Fjárhagur Barcelona veltur á bandarískum banka

Atli Arason skrifar
Framtíð Barcelona gæti verið í höndum Goldman Sachs.
Framtíð Barcelona gæti verið í höndum Goldman Sachs. Getty Images

Um síðustu mánaðamót tilkynnti Barcelona um sölu á 10% af sjónvarpsrétti félagsins næstu 25 árin. Það var bandaríska fjárfestingafélagið Sixth Street sem keypti hlutinn á 270 milljónir evra en sú sala gæti nú verið í hættu.

Samkvæmt nýjustu fregnum frá Spáni þarf Barcelona fyrst að ná samkomulagi við bandaríska bankann Goldman Sachs. Barcelona fékk 595 milljónir evra að láni frá bankanum á síðasta ári með veði í sjónvarpsrétti félagsins og því getur félagið ekki selt sjónvarpsréttinn án samráðs við bankann.

Barcelona vonast til að geta verslað inn leikmenn í sumar. Leikmenn eins og Raphinha, Robert Lewandowski og Jules Koundé hafa allir verið sterklega orðaðir við félagið að undanförnu en Barcelona skortir fjármagn. Liðið má til að mynda ekki skrá nýjustu liðsmenn sína, Franck Kessie og Andreas Christensen, fyrr en félagið hefur lagað óreiðuna í útgjöldum sínum.

Barcelona hefur nú þegar losað Coutinho og Dani Alves af launaskrá liðsins og Ousmane Dembele er á útleið en meira þarf til. Félagið hefur frest til 20. júlí næstkomandi að ná samkomulagi við Goldman Sachs.

Stjórn Barcelona hefur einnig samþykkt að selja allt að 49,9% af ímyndunarétt félagsins. Samkvæmt samantekt The Athletic gætu þessar tvær sölur fært félaginu um 600 milljónir evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×