Gleðin ríkti í miðbæ Reykjavíkur í dag þegar Hinsegindagar náðu hápunkti sínum með Gleðigöngunni. Hinsegin fólk fylkti liði að Hallgrímskirkju þar sem gangan hófst.
Margir lýstu áhyggjum af bakslagi í réttindabaráttu hinsegin fólks.
„Það sem má ekki gleymast er að öll mannréttindabarátta stendur saman þannig að það að komi bakslag komi hjá okkur getur mjög auðveldlega farið yfir í bakslag á konur og aðra hópa,“ segir Jóhann G. Thorarensen.
Kitty Anderson formaður Instersex Íslands segist hafa fundið fyrir bakslagi í þjóðfélaginu hvað varðar málefni hinseginfólks og nú sé mikilvægara að hinseginsamfélagið komi saman en áður.
Aðrir spyrja hvort samfélagið vilji ekki að allir séu hamingjusamir.
„Þetta virkar bara svona, við komumst tvö skref áfram og eitt skref aftur svo bara halda áfram að berjast. Það eina sem við viljum er að allir séu hamingjusamir er það ekki,“ segir Róbert Bjargarson, faðir hinsegin barna.
Söngkonan Sigga Beinteins segist hafa fundið fyrir samstöðu í dag og samstaðan sé með hinsegin fólki, hún segist vona að fordómarnir komi frá fáum einstaklingum sem vanti fræðslu. Hinsegin fólk hafi staðið sig vel í fræðslumálum. „Ég held að Íslendingar standi með hinseginsamfélaginu mjög vel eins og sást bara í dag,“ segir Sigga.