Fyrra stig Starship á að vera búið 33 Raptor eldflaugarhreyflum en í þessari tilraun var einungis kveikt á einnig. Síðar á þriðjudaginn var kveikt á tveimur hreyflum á seinna stiginu. Þetta var sömuleiðis í fyrsta sinn sem SpaceX kveikir á nýjustu kynslóð Raptor-eldflaugarhreyflanna með þá fasta á eldflaug.
Starship B7 static fire pic.twitter.com/taBpsd9LSV
— Elon Musk (@elonmusk) August 11, 2022
Í frétt Ars Techinca segir að markmiðið með tilraununum hafi verið að kanna eldsneytisleiðslur hreyflanna og að um nokkuð stórt skref sé að ræða. Mögulega gætu þetta verið þeir hlutar geimfarsins og eldflaugarinnar sem verða notaðir í fyrsta geimskotinu seinna á árinu.
Static fire test of two Raptor engines on Starship 24 pic.twitter.com/NNpViztphI
— SpaceX (@SpaceX) August 10, 2022
Starfsmenn SpaceX kalla fyrra stigið Booster 7 og seinna stigið Ship 24. Það er til marks um að fyrra stigið er sjöunda frumgerð fyrirtækisins og seinna stigið frumgerð 24. Margar frumgerðir Starship hafa sprungið í loft upp í Texas, þar sem SpaceX vinnur að þróun Starship.
SpaceX hefur þó ekki enn skotið Super Heavy eldflaug á loft. Eins og áður segir, stendur það til seinna á þessu ári.
Sjá einnig: Fá grænt ljós á frekari geimskot frá Texas
Starship-kerfið samanstendur af gríðarstórri eldflaug og af um fimmtíu metra löngu geimfari sem ber nafnið Starship. Bæði stig kerfisins eru hönnuð til að geta verið notuð mjög hratt aftur, eins og SpaceX hefur gert með Falcon-eldflaugarnar.
Starship á að vera grunnurinn að framtíð SpaceX. Með því að þróa fullkomlega endurnýtanlega eldflaug og geimfar gæti fyrirtækið dregið enn frekar úr kostnaði við geimskot og framkvæmt þau mun oftar en samkeppnisaðilar.
Elon Musk, eigandi SpaceX hefur áður sagt að Starship eigi í raun að vera eins og flugvélar. Hægt verði að stíga um borð í geimfar hér á Íslandi og lenda svo í Japan skömmu seinna. Þar eigi einungis að þurfa að dæla eldsneyti á geimfarið og fljúga því eitthvað annað.
Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur samið við SpaceX um að lenda geimförum á tunglinu með Starship-geimfari.
Sjá einnig: NASA semur við SpaceX um að lenda geimförum aftur á tunglinu
Næstu skref hjá starfsmönnum SpaceX er að prufukeyra fleiri hreyfla í einu og að endingu alla 33 á Super Heavy. Ekki verður hægt að skjóta Starship út í geim fyrr en það hefur verið gert.