Í tilkynningu frá Alvotech segir að skráning á aðalmarkað auki sýnileika félagsins auk þess að opna leið til þátttöku í innlendum og alþjóðlegum hlutabréfavísitölum.
Félagið er sem stendur skráð á First North Growth markaðinn hér á landi sem og aðalmarkað Nasdaq í Bandaríkjunum undir auðkenninu ALVO. Fyrstu viðskipti með bréf félagsins hófust 16. júní síðastliðinn í Bandaríkjunum og 23. júní á Íslandi.
„Við erum mjög spennt fyrir því að hefja umsóknarferlið til að færa viðskipti með hlutabréf í Alvotech yfir á Aðalmarkaðinn á Íslandi, eftir að við náðum þeim áfanga að vera fyrsta íslenska fyrirtækið sem skráð er samtímis í Bandaríkjunum og á Íslandi,“ er haft eftir Róberti Wessman, stofnanda og stjórnarformanni Alvotech í tilkynningunni.