Á Suðurlandi taka viðvaranir gildi klukkan sex í fyrramálið og gilda fram að hádegi. Búast má við Suðaustan hvassviðri eða stormi, 15-23 m/s og rigningu. Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll sem náð geta um 30 m/s. Fram kemur á vef Veðurstofunnar að varasamt sé fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni og að ekkert útivistarveður verði á meðan vðrið gengur yfir. Þá var tilkynnt fyrr í dag að lokað verði að gosstöðvunum í Meradölum á morgun vegna veðurs.

Við Faxaflóa taka viðvaranir gildi klukkan sjö í fyrramálið og gilda til klukkan eitt eftir hádegi. Búast má við suðaustan hvassviðri, 13-20 m/s og rigningu. Þá megi búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll sem náð geti 25 m/s, einkum á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Aftur er varað við að ökutæki sem taka á sig mikinn vind séu á ferðinni og sömuleiðis að ekkert útivistarveður verði.
Þá má búast við suðaustan stormi á Miðhálendinu, þar sem viðvaranir taka gildi klukkan sjö í fyrramálið og gilda til klukkan 17 síðdegis. Vindur verði á bilinu 18-25 m/s og búast megi við snörpum vindhviðum við fjöll sem nái um 35 m/s. Hvassast verði í hviðum norðvestan jökla og varasamar eða hættulegar aðstæður geti skapast fyrir ferðamenn og útivistarfólk.