Fótbolti

Hlín í byrjunarliðinu er Piteå varð fyrsta liðið til að vinna Rosengård

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir og stöllur hennar í Piteå urðu fyrstar til að vinna Rosengård í dag.
Hlín Eiríksdóttir og stöllur hennar í Piteå urðu fyrstar til að vinna Rosengård í dag. ANDREAS SANDSTRÖM/BILDBYRÅN

Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Piteå er liðið tók á móti Guðrúnu Arnardóttur og stöllum hennar í Rosengård í dag. Heimakonur unnu 2-1 sigur, en þetta var fyrsta tap Rosengård á tímabilinu.

Piteå náði forystunni strax á 11. mínútu áður en gestirnir jöfnuðu metin eftir rúmlega hálftíma leik og staðan því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Heimakonur náðu forystunni á ný þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka og það reyndist sigurmark leiksins. Niðurstaðan varð því 2-1 sigur Piteå og fyrsta tap Rosengård á tímabilinu því staðreynd.

Guðrún lék allan leikinn í liði gestanna, en Rosengård er enn á toppi deildarinnar með 39 stig eftir 16 leiki. Piteå situr hins vegar í sjöunda sæti með 26 stig.

Þá máttu Berglind Ágústsdóttir og stöllur hennar í Örebro þola 6-0 tap er liðið heimsótti Häcken á sama tíma. Örebro situr í tíunda sæti deildarinnar með 21 stig, 11 stigum á eftir Häcken sem situr í fjórða sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×