Fótbolti

Daníel Tristan semur við Mal­­mö | Bræðurnir þrír allir komnir til Sví­­þjóðar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Daníel Tristan Guðjohnsen í landsleik með U-17.
Daníel Tristan Guðjohnsen í landsleik með U-17. Instagram - daniel.gudjohnsenn

Daníel Tristan Guðjohnsen er genginn í raðir sænska stórliðsins Malmö frá Real Madrid. Þar með eru allir þrír synir Eiðs Smára Guðjohnsen komnir í sænska boltann.

Malmö tilkynnti um komu Daníels í dag en hann kemur frá unglingaliði Real Madrid hvar hann hefur verið um fjögurra ára skeið. Áður var hann í akademíu Barcelona.

Daníel Tristan er 16 ára gamall, fæddur árið 2006, og er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrrum atvinnumanns og núverandi þjálfara FH, og Ragnheiðar Sveinsdóttur. Bræðurnir þrír stunda nú allir sína iðju í Svíaríki en Andri Lucas Guðjohnsen fór frá B-liði Real Madrid til Norrköping í sumar og Sveinn Aron Guðjohnsen hefur leikið með Elfsborg síðan í fyrra.

Daníel á að baki tvo leiki fyrir U16 ára landslið Íslands og hefur þá skorað tvö mörk í átta leikjum fyrir U17 ára landsliðið.

Fram kemur í tilkynningu Malmö að hann muni æfa með U19 ára liði félagsins en litið sé á hann sem framtíðarmann í aðalliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×