Starfsmannafélag Þjóðminjasafns Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem tekið er undir þá gagnrýni sem sett hefur verið fram vegna skipunarinnar.
Gagnrýnin beinist ekki að Hörpu
„Starfsmannafélag Þjóðminjasafns Íslands tekur undir þá gagnrýni sem komið hefur fram hjá fagfélögum og BHM á verklagi menningar- og viðskiptaráðuneytis við skipun þjóðminjavarðar þann 25.8.2022,“ segir í yfirlýsingunni sem er til þess að gera stutt en hana sendir fyrir hönd félagsins Ármann Guðmundsson sérfræðingur.
Þar segir ennfremur:
„Félagið harmar að ráðuneyti og ráðherra hafi valið að auglýsa ekki embættið til umsóknar. Verklagið lýsir metnaðarleysi ráðuneytisins í garð Þjóðminjasafns Íslands, ber vott um ógagnsæja stjórnsýslu og kastar rýrð á málaflokkinn í heild.“
Í yfirlýsingunni er tekið sérstaklega fram að hér sé um að ræða gagnrýni á verklagi, en ekki að spjótum sé beint að þeim sem skipuð var og er það í takti við aðrar yfirlýsingar sem fram hafa komið um þessa skipan:
„Gagnrýnin beinist alfarið að ferli skipunarinnar en ekki að Hörpu Þórsdóttur.“
Framsókn leiði handráðningar í stöður á vegum hins opinbera
Vísir hefur greint ítarlega frá þessum máli en gagnrýnin hefur ekki síst byggst á stjórnsýslulegum sjónarmiðum.
Í viðtali við fréttastofu segir Lilja að Harpa sé hæf en gagnrýnin hefur ekki snúið að því heldur hvernig að málum er staðið. Haukur Arnþórsson stjórsýslufræðingur segir að með þessum handráðningum ráðherra sé verið að hverfa ár og áratugi aftur í tímann:
„Fyrir fáeinum árum þegar farið var að handráða eða ráða með flutningi í ráðuneytisstjórastöður og stöður forstöðumanna ríkisstofnana var látið eins og ekki þyrfti umræðu um málið - ekki þyrfti nema einfalda lagaheimild - og bingó - nú þyrfti ekki lengur auglýsingu og ekkert ráðningarferli og enginn gæti sagt neitt.
Þegar hátt hlutfall ráðuneytisstjóra er handráðinn - undir forystu Framsóknar, forystu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hafa síðan fylgt - þarf að staldra við.
Á hvaða forsendum er þessi breyting á ráðningum gerð, hvaða afleiðingar hefur hún og hvað segir stjórnarandstaðan, hagsmunaaðilar (stéttarfélögin) og almenningur?“ spyr Haukur í nýlegri grein um málið.