Innlent

Lauf­ey hættir hjá Sjálf­stæðis­flokknum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Laufey Rún Ketilsdóttir hefur starfað sem starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í tæplega þrjú ár.
Laufey Rún Ketilsdóttir hefur starfað sem starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í tæplega þrjú ár. Mynd/SUS

Laufey Rún Ketilsdóttir hefur sagt upp sem starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur gegnt starfinu undanfarin þrjú ár en hún segir tímann leiða í ljós hver næstu skref verða.

Laufey tók við sem starfsmaður þingflokksins í október árið 2019 en fyrir það starfaði hún sem aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen er hún var dómsmálaráðherra. Fyrir það hafði Laufey starfað hjá Morgunblaðinu, Juris lögmannastofu, Gjaldskilum innheimtuþjónustu og regluvörslu Arion Banka.

Í maí á þessu ári eignaðist Laufey stúlku með kærasta sínum, þingmanninum Bergþóri Ólasyni, sem situr á þingi fyrir Miðflokkinn. Í kringum áramótin seldi Laufey íbúð sína til að flytja inn með Bergþóri.

Laufey greinir nú frá því á Facebook-síðu sinni að hún hafi sagt upp sem starfsmaður þingflokksins í sömu viku og dóttir hennar og Bergþórs, Ósk, fagnaði fjögurra mánaða afmæli.

„Óska félögum mínum þar alls hins besta og er spennt fyrir næstu skrefum sem tíminn leiðir í ljós hver verða. Þangað til höldum við Ósk áfram í banastuði og æfum ýmis trix, til dæmis röddina - mjög hátt helst,“ segir Laufey.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa margir hverjir óskað Laufeyju velgengni í næstu verkefnum sínum, til að mynda Vilhjálmur Árnason, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Hildur Sverrisdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


Tengdar fréttir

Bergþór og Laufey eiga von á barni

Laufey Rún Ketilsdóttir starfsmaður Sjálfstæðisflokksins og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, eiga von á barni. Laufey tilkynnti þetta á Instagram í kvöld og sagði að von væri á barninu í byrjun sumars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×