Innlent

„Þau hafa ekki fengið þá aðstoð sem þau þurfa“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
FotoJet87ukyjmgn

Vel rúmlega 1100 börn bíða eftir að komast að hjá fagfólki Skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Borgarfulltrúi segir ástandið stjórnlaust. Það sé hættulegt að láta börn í andlegri vanlíðan bíða eftir sálfræðiþjónustu.

Önnur 874 börn hafa fengið fyrsta viðtal en bíða frekari þjónustu, samtals bíða því nú 2017 börn eftir þjónustu hjá Skólaþjónustunni.

Sérfræðiþjónusta við leik-og grunnskóla á sviði faglegrar ráðgjafar og sálfræðiþjónustu er í þjónustumiðstöðvum hjá hverfum borgarinnar.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir 400 börn hafa verið á þessum sama biðlista þegar hún hóf störf sem borgarfulltrúi 2018 en nú eru þau 2017.

„Það er svo ótrúlega hættulegt að bíða þegar börn eru í vanlíðan. Ég óttast náttúrulega alltaf mest að þau grípi til örþrifaráða ef þau eru búin að bíða lengi og kannski komin á unglingsárin. Þau hafa ekki fengið hlustun og þau hafa ekki fengið þá aðstoð sem þau þurfa.“

Á dögunum greindi fréttastofa frá því að 618 börn bíða nú eftir sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þörfin er bersýnilega mikil. Kolbrún segir að ekki sé hægt að láta börn bíða eftir nauðsynlegri þjónustu.

„Eitt er fyrir fullorðið fólk að bíða en allt annaðfyrir börn sem eru að taka út sinn þroska og móta sína sjálfsmynd með andlega vanlíðan og sálfræðileg vandamál. Það er í rauninni með ólíkindum að þau séu látin bíða lon og don. Maður fer líka að hugsa hvernig við erum að undirbúa krakka og börn fyrir framtíðina ef þau koma út í lífið án þess að hafa fengið nauðsynlega aðstoð með sín vandamál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×