Barátta Hrafns við krabbameinið illvíga hefur vakið mikla athygli undanfarið en hann hafði gefið því nafnið Surtla. Hann hefur sagt frá baráttunni á Facebooksíðu sinni. Nú síðast greindi hann frá því að geisla- og lyfjastríð hefði greitt Surtlu þungt högg. Þá bað hann vini sína að gera ekki og mikið úr „hetjuskap“ hans í baráttunni við krabbameinið.
Fréttablaðið greinir frá andláti Hrafns.
Hrafn lætur eftir sig eiginkonuna Oddnýju Halldórsdóttur, en þau giftust í byrjun september sem líður, og fjögur börn, þau Þorstein Mána, Örnólf, Þórhildi Helgu og Jóhönnu Engilráð.
„Við Oddný náðum saman aftur eftir 30 ára aðskilnað. Mestu máli skiptir að ég leysti lífsgátuna mína og í sameiningu ætlum við að leiða til lykta lífsgátuna miklu, með gleði, kærleika og sigurvissuna að leiðarljósi,“ sagði Hrafn þegar hann greindi frá giftingunni.
Auk þess að berjast við Surtlu hefur Hrafn undanfarið verið í átökum við íslenska ríkið. Hann stefndi ríkinu vegna handtöku, sem hann taldi ólögmæta, og vegna krabbameinsins, sem hann taldi lækna hafa átt að greina fyrr.
Kom víða við
Hrafn kom víða við á ævinni en hann er hvað þekktastur fyrir ritstörf sín. Bæði sem rithöfundur og blaðamaður en hann hóf störf á Tímanum aðeins fimmtán ára gamall og gegndi stöðu ritstjóra Alþýðublaðsins og Mannlífs. Hann var einnig varaþingmaður Alþýðuflokksins og tók sæti á þingi árið 1995.
Þá stofnaði Hrafn skákfélagið Hrókinn sem haldið hefur fjöldann allan af alþjóðlegum skákmótum hér á landi. Síðustu ár hefur Hrókurinn staðið fyrir heimsóknum í alla grunnskóla landsins og á Barnaspítala Hringsins. Hrafn hefur lengi verið dyggur stuðningsmaður Hringsins og hvatti fólk síðast í gær til að leggja spítalanum lið.
