Greint er frá kaupunum í tilkynningu frá Þorpinu en þar segir að kaupin séu gerð með fyrirvara um fjármögnun og áreiðanleikakönnun. Yrki arkitektar hafa gert frumtillögur að íbú'um í húsinu.
Í tillögunum er gert ráð fyrir íbúðum á bilinu fimmtíu til hundrað fermetrar og þá er gert ráð fyrir að breyta bílastæðum sunnan við húsið í skjólgott grænt svæði sem bæði íbúar hússins og Vesturbænum í heild sinni geta nýtt sér. Allar íbúðir munu hafa lítinn pall eða garð í suður og norðan megin verður gert ráð fyrir svölum.
„Þorpið vistfélag vill vera leiðandi í þróun íbúða með áherslu á hagkvæmni, umhverfi og samfélag. Félagið vill leggja sitt af mörkum til jákvæðrar þróunar samfélagsins og skapa með því bæði samfélagslegan arð og fjárhagslegan. Þá vill félagið nýta þekkingu sína og reynslu til að tengja saman ólíka aðila og vera eftirsóknarverður samstarfsaðili ríkis, borgar og fjárfesta við uppbyggingu íbúða í takt við þarfir og áætlanir um stóraukið framboð íbúða á næstu árum,“ segir í tilkynningunni.
