Fótbolti

Verði að borga bætur fyrst þeir hafi verið „svona sniðugir“

Sindri Sverrisson skrifar
Louis van Gaal er ekki hrifinn af þeirri ákvörðun FIFA að halda HM í Katar.
Louis van Gaal er ekki hrifinn af þeirri ákvörðun FIFA að halda HM í Katar. Getty

Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Hollands, segir að fjölskyldur verkamanna sem létust í Katar, þar sem þeir unnu við uppbyggingu fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta, eigi „að sjálfsögðu“ að fá bætur frá FIFA.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch, Amnesty International og FairSquare skrifuðu í júlí bréf til fjórtán styrktar- og samstarfsaðila FIFA vegna heimsmeistaramótsins, og kölluðu eftir þrýstingi á að FIFA myndi greiða fjölskyldum bætur vegna þess hve illa hefði verið farið með verkafólk í Katar.

Margar fjölskyldur hafa engar bætur fengið og því verið haldið fram að dánarorsakir séu náttúrulegar, jafnvel þó að flestir verkamannanna hafi verið frekar ungir karlmenn sem unnu langa vinnudaga í miklum hita. Í fyrra sagði The Guardian frá því að í það minnsta yfir 6.500 verkamenn hefðu látist í Katar frá því að landið fékk HM.

Van Gaal telur að alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, geti sjálfu sér um kennt að hafa ákveðið að halda HM í Katar og að sambandið verði að axla ábyrgð vegna þess.

„Auðvitað styð ég það að greiddar verði bætur (vegna fórnarlamba þess hve illa var farið með verkafólk við byggingu HM-leikvanga í Katar) og ég tel að það verði að gerast sérstaklega í ljósi þeirra milljarða, ég meina milljóna [evra] sem FIFA hagnast um vegna mótsins,“ sagði Van Gaal á blaðamannafundi í dag.

„Fyrst að þeir voru svona sniðugir að halda HM þarna þá verða þeir að takast á við allt sem fylgir þeirri ákvörðun,“ sagði Van Gaal sem stýra mun Hollendingum á HM í nóvember og desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×