Sport

Sá reynslu­minnsti sló í gegn: „Þessi gæi er með flug­elda­sýningu“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Geir Hjartarson kom, sá og sigraði á fyrsta kvöldinu í Úrvalsdeildinni í pílukasti.
Arnar Geir Hjartarson kom, sá og sigraði á fyrsta kvöldinu í Úrvalsdeildinni í pílukasti. Stöð 2 Sport

Arnar Geir Hjartarson frá Sauðárkróki, sem byrjaði í pílukasti í fyrra, kom öllum á óvart og tryggði sig inn á úrslitakvöldið með sigri í fyrsta riðli Úrvalsdeildarinnar í pílukasti í gærkvöld.

Keppt er í fjórum riðlum í Úrvalsdeildinni og kemst einn áfram úr hverjum riðli á úrslitakvöldið sem fram fer í desember. Í gær var það Arnar Geir sem fór með sigur af hólmi en hér að neðan má sjá sigurköst hans í leikjunum þremur í gær, í líflegri lýsingu Páls Sævars Guðjónssonar á Stöð 2 Sport.

Klippa: Tilþrif Arnars Geirs sem fagnaði sigri fyrsta kvöldið

„Þessi gæi er með flugeldasýningu hér í kvöld,“ sagði Páll Sævar þegar Arnar Geir sýndi hvers hann er megnugur, gegn andstæðingum sem sumir eru mun reynslumeiri.

Arnar Geir hóf kvöldið á leik við margfaldan meistara Hörð Þór Guðjónsson og náði að knýja fram 3-1 sigur. Hörður átti besta heildarmeðalskor kvöldsins en hann fékk að meðaltali 71,86 með pílunum þremur, á meðan að Arnar Geir kom næstur með 69,44.

Arnar Geir vann næst landsliðsþjálfarann Kristján Sigurðsson, 3-2, eftir að hafa tvívegis lent undir í leiknum. Lokaleikur hans var við Pétur Rúðrik Guðmundsson þar sem Arnar Geir vann 3-1 sigur.

Hörður varð í 2. sæti, Kristján í 3. sæti og Pétur neðstur að þessu sinni, þrátt fyrir að vera með betra meðalskor þetta kvöldið eða 62,12 gegn 68,06 hjá Pétri.

Nánar má lesa um úrslitin hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×