Austurfrétt greinir frá því að þegar hafi verið tekin ákvörðun um að flytja húsið á nýjan stað en Björn Ingimarsson, sveitastjóri Múlaþings og eigandi hússins, segir í samtali við miðilinn að atburðir helgarinnar flýti aðeins fyrir því ferli frekar en annað.
Húsið stóð af sér skriðuföllin á Seyðisfirði árið 2020 en burðavirkið er talið hafa gefið sig um helgina og því hafi það trúlega verið í verra ástandi en upprunalega var talið eftir skriðurnar.
Múlaþing og Minjastofnun funduðu saman í gær og stendur til að fjarlægja húsið sem fyrst. Húsið hafi verið í friðunarferli og ljóst að aðeins hluti þess yrði nýttur í endurbygginguna en greina þurfi og flokka þá hluti sem Minjavernd vilji halda í.
Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, segir í samtali við Morgunblaðið að húsið verði tekið niður en heillegt efni sett í gáma og geymt þar til húsið verður endurbyggt á ný. Ljóst sé að hafa þurfi hraðar hendur þar sem foktjón geti orðið í millitíðinni.
Húsið var byggt árið 1880 af Ottó Wathne, sem oft er kallaður faðir Seyðisfjarðar, en á sínum tíma var húsið notað undir síldarverkun, verslun og íbúð. Frá þeim tíma hefur það þjónað ýmsum hlutverkum, þar á meðal sem geymslu- og sýningarhúsnæði fyrir Tækniminjasafn Austurlands, sem var tæmt eftir skriðurnar árið 2020.
Mikið tjón víða
Rauð veðurviðvörun var í gildi á Austfjörðum á laugardag og appelsínugul viðvörun í gær en ljóst er að mikið tjón hafi þar orðið. Morgunblaðið hefur það eftir forstöðumanni hjá Sjóvá að ljóst sé að tjónið nemi tugum milljóna.
Veðurofsinn var víða, þar á meðal á Norðurlandi eystra. Sjór gekk á land á Eyrinni á Akureyri með tilheyrandi tjóni og tré rifnuðu upp með rótum og rúður brotnuðu á Austurlandi. Þá komu björgunarsveitir erlendum ferðamönnum til bjargar í Möðrudalsöræfum.
Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri aðgerðarmála hjá Landsbjörg, segir verkefnin á landinu öllu hafa verið yfir tvö hundruð talsins yfir helgina þar sem um 350 björgunarsveitarmenn hafi verið að störfum.