Viðvaranir eru í gildi fyrir allt landið vegna veðurs á sunnudaginn. Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir Norðurland vestra, eystra og Austurland að glettingi þar sem búist er við að mikil úrkoma og hvassviðri geti valdið usla.
Við erum búin að vera að undirbúa okkur í morgun fyrir þetta veður sem er spáð um helgina, segir Steinunn Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúi Landsnets í samtali við Vísi.
Morguninn var nýttur til að funda með Veðurstofunni, Vegagerðinni og ýmsum aðilum til að leggja mat á þá stöðu sem upp gæti komið á sunnudaginn.
„Til að rýna svolítið í það hvar mögulega gæti orðið áraun á kerfið hjá okkur. Við munum svo fylgjast vel með um helgina og bregðast við eftir þörfum. Við erum að auka mannskap hjá okkur í stjórnstöðinni og erum að skoða hvernig við mönnum út í mörkinni. Við munum taka þær ákvarðanir þegar veðrið liggur ljóst fyrir,“ segir Steinunn.
Aðallega er horft á Norðausturlandið þar sem mikilli úrkomu er spáð í formi slyddu eða snjókomu, sem gæti haft áhrif á raflínur á svæðinu.
„Við einblínum eins og spáin er núna á Norðausturlandið en það verður víða vont veður þannig að í raun er stór hluti af landinu undir,“ segir Steinunn.

Aftakaveðrið í desember 2019 er mörgum í fersku minni þar sem víða varð rafmagnslaust. Selta hlóðst utan á raflínur og rafstöðvar og víða brotnuðu raflínurstaurar undan þungri ísingu sem hlóðst á línunar. Þó óvíst sé að veðrið nú verði af þeirri stærðargráðu hefur Landsnet vaðið fyrir neðan sig nú.
„Við lærðum ótrúlega mikið af 2019-veðrinu og tökum þann lærdóm inn í þessa lægð ef hún verður eitthvað svipuð. Þannig að já, vonandi erum við betur í stakk búinn.“