Skoðun

Hreyfingin ó­starf­hæf – eða hvað?

Ástþór Jón Ragnheiðarson skrifar

Það vefst ekki fyrir neinum sem fylgdist með fjölmiðlum að þing alþýðusambandsins var viðburðaríkt. Án þess að fara nánar út í þingið sem slíkt þá langar mig að velta upp spurningu. Því hefur verið haldið fram af fólki, fjölmiðlum og í einhverjum tilfellum fólki innan verkalýðshreyfingarinnar að hreyfingin sé óstarfhæf. En er hreyfingin óstarfhæf?

Vissulega voru viðburðir þingsins ekki til þess fallnir að auka samstöðu, trúverðugleika eða traust. Ætla má að róðurinn geti orðið þungur fram á við og við þurfum að leggja okkur 100% fram í komandi kjarasamningum. Aftur á móti þá hafna ég þeirri fullyrðingu að hreyfingin sé óstarfhæf.

Hreyfinguna mynda 127 þúsund félagsmenn í 5 landssamböndum og 44 aðildarfélögum. Hvað hefur breyst? Hvernig erum við óstarfhæf? Það hefur lítið breyst í okkar starfi eftir þing alþýðusambandsins, við förum áfram í vinnustaðaeftirlit, aðstoðum félagsmenn, afgreiðum styrki og umsóknir og höldum áfram að starfa í þágu félagsmanna. Það hefur ekki og mun ekki breytast. Félagsmenn verða alltaf í fyrsta sæti.

Það verður verkefni okkar á komandi mánuðum að koma öflug inn í kjaraviðræður en samhliða því er nauðsynlegt að við náum að leiða saman ólík sjónarmið, grafa stríðsöxina, sammælast og ná sáttum um okkar sterkasta baráttuafl, stærstu launþegahreyfingu landsins, Alþýðusamband Íslands.

Hreyfingin eru fólkið og félögin sem mynda hana. Félögin munu halda starfi sínu áfram, munu vaxa og dafna og halda baráttu launafólks á lofti.

Höfundur er formaður ASÍ-UNG og fræðslu- og eftirlitsfulltrúi Verkalýðsfélags Suðurlands.




Skoðun

Sjá meira


×