Fótbolti

Birkir Már: Við þurfum að vinna fólkið aftur á völlinn og vera Val til sóma aftur

Árni Jóhannsson skrifar
Birkir Már Sævarsson gat verið ánægður með framlag sitt í kvöld
Birkir Már Sævarsson gat verið ánægður með framlag sitt í kvöld Hafliði Breiðfjörð

Hann fór mikinn hann Birkir Már Sævarsson í sigri Vals á Stjörnunni fyrr í kvöld. Valur vann leikinn 3-0 en leikið var á Origo vellinum að Hlíðarenda. Birkir skoraði, lagði upp mark og lék vel varnarlega í leiknum.

Hann var spurður að því hvort hann gæti beðið um mikið meira en það sem gerðist í kvöld. 

„Nei ég held að það sé ekki hægt að biðja um mikið meira verandi hægri bakvörður. Ég held að þetta sé nokkuð gott bara.“

Hann var þá spurður að því hvað Valsmenn hefðu gert rétt til að ná í sigurinn.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn ekki frábær. Við gáfum þeim aðeins of mikið af boltanum en þeir sköpuðu sér hinsvegar ekki mikið af færum aftur á móti. Við vorum ekki alveg nógu mikið með boltann fannst mér. Í seinni hálfleik vorum við með mikið betri stjórn á þessum leik. Eftir annað markið fannst mér við halda boltanum vel og mörkin hefðu getað verið fleiri.“

Birkir var spurður að því hvort það væri hægt að leyfa sér aðeins meira þegar það væri lítið undir á þessum árstíma.

„Já það er lítið undir þannig séð en við erum bara að reyna að enda eins ofarlega og við getum. Við viljum allir enda eins hátt og við getum en við vorum að búnir að tapa einhverjum fimm leikjum í röð og það er pressa á því að ná því. Þegar maður er í Val þá er það óasættanlegt að tapa svona mörgum leikjum í röð. Við erum allir að reyna að enda mótið vel og enda í fjórða sætinu.“

Að lokum var Birkir Már spurður út í það hvort Valsmenn væru farnir að huga að næsta tímabili. Hann væri kominn með nýjan samning og tækifæri til að undirbúa næsta tímabila jafnvel.

„Svona aftast í höfðinu er næsta tímabil og að gera betur. Við þurfum að vinna fólkið aftur á völlinn og vera Val til sóma aftur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×