Villa tapaði 0-2 fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær. Ekki vantaði tækifærin fyrir strákana hans Gerrards en Kepa Arrizabalaga var í stuði í marki gestanna.
Villa er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með níu stig eftir tíu umferðir. Liðið er aðeins einu stigi frá fallsæti.
Samkvæmt staðarblaðinu Birmingham Mail gætu örlög Gerrards ráðist á næstu dögum en hann ku fá tvo leiki til að bjarga starfinu. Villa sækir nýliða Fulham heim á fimmtudaginn og fær svo Brentford í heimsókn á sunnudaginn. Ef úrslitin í þessum tveimur leikjum verða ekki ásættanlegt gæti Gerrard þurft að leita sér að nýju starfi.
Villa hefur aðeins einu sinni byrjað tímabil í ensku úrvalsdeildinni verr en núna. Það var tímabilið 2015-16 þegar Villa féll.
Gerrard hefur stýrt Villa í 39 leikjum síðan hann tók við liðinu af Dean Smith í nóvember í fyrra. Villa hefur unnið þrettán leiki, gert átta jafntefli og tapað átján leikjum.