Körfubolti

Nýliðinn í hóp með Kareem og LeBron

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paolo Banchero blómstraði í fyrsta leik sínum í NBA.
Paolo Banchero blómstraði í fyrsta leik sínum í NBA. getty/Nic Antaya

Nýliðinn Paolo Banchero stimplaði sig inn í NBA-deildina í körfubolta með látum þegar hann þreytti frumraun sína með Orlando Magic í nótt.

Banchero skoraði 27 stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar þegar Orlando tapaði fyrir Detroit Pistons, 113-109. 

Hann er fyrsti nýliðinn sem skorar 25 stig eða meira, tekur að minnsta kosti fimm fráköst og gefur að minnsta kosti fimm stoðsendingar í fyrsta leik sínum í NBA síðan LeBron James 2003. Og aðeins þrír leikmenn sem hafa verið valdir fyrstir í nýliðavalinu hafa verið með viðlíka tölfræði í fyrsta leik sínum í NBA: Kareem Abdul-Jabbar, LeBron og Banchero.

Þá hefur enginn nýliði í sögu Orlando skorað meira í fyrsta leik fyrir félagið en Banchero sem var valinn fyrstur í nýliðavalinu í sumar og fara þarf aftur til 1996 til að finna leikmann sem var valinn fyrstur í nýliðavalinu sem skoraði jafn mikið í frumraun sinni í NBA. Það var Allen Iverson fyrir Philadelphia 76ers.

Eftir að hafa misst af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla sneri Zion Williamson aftur í lið New Orleans Pelicans og skoraði 25 stig og tók níu fráköst í sigri á Brooklyn Nets, 108-130. Brandon Ingram var stigahæstur Pelíkananna með 28 stig.

Kevin Durant skoraði 32 stig fyrir Brooklyn. Kyrie Irving náði sér ekki á strik og skoraði fimmtán stig úr nítján skotum og Ben Simmons átti erfitt uppdráttar í fyrsta leik sínum fyrir Brooklyn. Hann skoraði aðeins fjögur stig en fékk sex villur og Brooklyn tapaði með 26 stigum þegar hann var inni á vellinum.

Chicago Bulls fór vel af stað og sigraði Miami Heat, 108-116, á útivelli. DeMar DeRozan hélt uppteknum hætti frá síðasta tímabili og skoraði 37 stig og gaf níu stoðsendingar. Jimmy Butler skoraði 24 stig fyrir Miami og Tyler Herro 23.

Damion Lee skoraði sigurkörfu Phoenix Suns þegar liðið vann Dallas Mavericks, 107-105, eftir stoðsendingu frá besta manni vallarins, Devin Booker. Hann skoraði 28 stig og gaf níu stoðsendingar í endurkomusigri Phoenix sem lenti mest 22 stigum undir í leiknum.

 Luka Doncic var að venju allt í öllu hjá Dallas og skoraði 35 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Chris Wood skilaði 25 stigum og átta fráköstum í fyrsta leik sínum fyrir Texas-liðið.

Úrslitin í nótt

  • Detroit 113-109 Orlando
  • Brooklyn 108-130 New Orleans
  • Miami 108-116 Chicago
  • Phoenix 107-105 Dallas
  • Indiana 107-114 Washington
  • Atlanta 117-107 Houston
  • Toronto 108-105 Cleveland
  • Memphis 115-112 NY Knicks
  • Minnesota 115-108 Oklahoma
  • San Antonio 102-129 Charlotte
  • Utah 123-102 Denver
  • Sacramento 108-115 Portland
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×