Heiðar fór til Vals fyrir þetta tímabil eftir að hafa spilað með Stjörnunni allan sinn feril. Hann hefur komið við sögu í þrettán leikjum í Bestu deildinni í sumar.
„Ég er mættur heim og er ótrúlega ánægður með að hafa náð samkomulagi um að spila aftur með uppeldisfélagi mínu. Stjarnan er með mjög spennandi leikmenn innan sinnar raða, eina flottustu aðstöðu landsins og gott teymi í kringum sig. Mikil uppbygging hefur átt sér stað og góður grunnur myndast í kjölfarið. Það sést best inná vellinum þar sem margir ungir og efnilegir leikmenn hafa fengið tækifærið og nýtt það vel,“ sagði Heiðar í fréttatilkynningu frá Stjörnunni.
„Ég hlakka mikið til að fá tækifæri til að spila með þeim og gefa þeim góð ráð. Ég á frábærar minningar héðan og er ég gífurlega spenntur að búa til fleiri með bestu stuðningsmönnum landsins. Ég hef mikla trú á þessu verkefni sem er framundan, að koma Stjörnunni aftur í fremstu röð. Skíni Stjarnan!“
Stjarnan tapaði 0-3 fyrir KA í Bestu deildinni í gær. Liðið er í 6. sæti. Lokaleikur Stjörnunnar á tímabilinu er gegn KR á laugardaginn.