Þrír félagar í Gráa hernum, sem er baráttuhópur eldri borgara, höfðuðu málin þar sem þeir töldu að Tryggingarstofnun ríkisins hefði verið óheimilt að lækka ellilífeyri þeirra og heimilisuppbót vegna greiðslna sem þeir fengu á sama tíma úr lífeyrissjóðum. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af málinu fyrir um ári og nú í dag dæmdi Hæstiréttur að sá dómur skuli standa óraskaður.
Ingibjörg Sverrisdóttir og Wilhelm Wessman eru tvö þeirra sem höfðuðu málin fyrir hönd Gráa hersins. Þau segja niðurstöðuna mikil vonbrigði.
„Þetta eru náttúrulega fyrst og fremst vonbrigði vegna þess að við erum náttúrulega að berjast fyrir því að það sem við erum að leggja inn í lífeyrissjóðina að þetta komi okkur til viðbótar. Þetta eru nú ekki háar upphæðir sem er verið að skammta okkur frá Tryggingarstofnun og síðan er þetta að skerða það sem við erum búin að vera að ávaxta, í mínu tilfelli frá 1970. Þannig að við höldum þessari baráttu áfram. Þetta er alveg gífurlegt óréttlæti hvernig komið er fram við okkur,“ segir Ingibjörg.
Wilhelm tekur í sama streng.
„Skerðingarnar geta verið allt upp í 72%. Ég er eins og Ingibjörg búinn að greiða í lífeyrissjóð síðan 1968 og eins og þetta var kynnt þá var þetta kynnt sem viðbót við hérna það sem Tryggingarstofnun átti að greiða. Þannig að þetta var aldrei byggt upp til þess að Tryggingarstofnun gæti notið góðs af og lækkað sínar greiðslur,“ segir Wilhelm Wessman.
Þau íhuga nú að leita með málin til Mannréttindadóms Evrópu.
„Það er ekkert ólíklegt að þetta verði tekið út fyrir landsteinana,“ segir Wilhelm.