Irving komst enn og aftur í sviðsljósið fyrir hegðun sína utan vallar. Nú vegna færslna á samfélagsmiðlum sem hægt er að tengja við gyðingahatur. Var hann á endanum skikkaður í fimm leikja bann af Nets og þá setti félagið sex skilyrði sem hann þyrfti að uppfylla áður en hann fengi að snúa aftur. Þá hefur Nike sagt upp samningi sínum við leikmanninn.
„Vorum við ekki að tala um þetta fyrir ári síðan með bólusetningarnar líka, pældu í hvað þessi gæi gerir bara árlega. Þetta er ótrúlegt,“ svaraði Hörður Unnsteinsson varðandi hvort Kyrie myndi spila aftur. Næstur á mælendaskrá var Sigurður Orri Kristjánsson.
„Hann gæti alveg verið búinn að því. Hann er ekki maðurinn sem dregur úr. Hann fer með hælana dýpra og dýpra í sandinn.“
„Fyrir mér er Kyrie Irving full frjálst að hafa þær skoðanir sem hann vill hafa. En það sem ég á svo erfitt með að skilja er hvernig fullorðinn maður nennir þessu. Að nenna, dag eftir dag,“ sagði Kjartan Atli við góð viðbrögð sérfræðinga þáttarins.
„Það er bara aldrei slagur sem þú sleppir,“ sagði Sigurður Orri um Kyrie og hló dátt.
„Vaknaðu bara, fáðu þér einn kaffibolla, croissant, lestu blöðin, farðu í vinnuna, komdu heim og njóttu þess, Það er geggjað líf,“ sagði Kjartan Atli að endingu.
Lögmál leiksins er á dagskrá Stöðvar 2 Sport 2 klukkan 21.45 í kvöld. Þar verður farið yfir stöðu mála hjá Nets og Kyrie ásamt því helsta sem er í gangi í NBA deildinni. Þá er Nei eða Já á sínum stað.
Lögmál leiksins er vikulegur þáttur um NBA-deildina sem er sýndur á mánudögum á Stöð 2 Sport 2. NBA-deildin er hluti af Sport Erlent sem kostar kr. 3.990 á mánuði. Smelltu hér til að kaupa áskrift.