Sport

Eina konan stígur á svið og síðasti miðinn í boði

Sindri Sverrisson skrifar
Fjórir keppendur berjast í kvöld um síðasta sætið sem í boði er á úrslitakvöldinu í Úrvalsdeildinni í pílukasti.
Fjórir keppendur berjast í kvöld um síðasta sætið sem í boði er á úrslitakvöldinu í Úrvalsdeildinni í pílukasti. Stöð 2 Sport

Í kvöld ráðast úrslitin í síðasta undanriðlinum í Úrvalsdeildinni í pílukasti, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, þar sem einn keppandi tryggir sér sæti á úrslitakvöldinu í desember.

Að venju eru fjórir keppendur skráðir til leiks og þar á meðal er Ingibjörg Magnúsdóttir úr Pílukastfélagi Hafnarfjarðar, eina konan í keppninni. Ingibjörg, sem er 36 ára gömul, er fjórfaldur Íslandsmeistari og með áratugs reynslu af pílukasti en ljóst er að við ramman reip verður að draga hjá henni í kvöld.

Reynsluboltinn Þorgeir Guðmundsson, þrefaldur Íslandsmeistari karla, þykir sigurstranglegur í kvöld en hinn 24 ára gamli Björn Andri Ingólfsson, mættur alla leið frá Grenivík sem fulltrúi Magna, er einnig til alls líklegur.

Fjórði keppandi kvöldsins er svo hinn 18 ára gamli Alexander Veigar Þorvaldsson, nemi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en hann er þrefaldur Íslandsmeistari unglinga og afar efnilegur.

Þeir þrír keppendur sem tryggt hafa sér sér sæti í úrslitum eru Guðjón Hauksson, Vitor Charrua og Arnar Geir Hjartarson en úrslitakvöldið fer fram 3. desember.

Bein útsending frá keppni kvöldsins hefst klukkan 20 á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×