Skoðun

Tími aðgerða er kominn

Haraldur Hallgrímsson skrifar

Það er yfirþyrmandi en um leið magnað að sækja COP27 loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi. Hér eru staddir fulltrúar allra þjóða til þess að ná samkomulagi um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Verkefnið er alþjóðlegt, enda er andrúmsloftið sameign okkar allra og fer yfir landamæri án þess að spyrja kóng eða prest. Framvísar ekki einu sinni vegabréfi.

Áskoranir og aðstæður eru mismunandi eftir þjóðum, landsvæðum og atvinnugreinum, en eitt er ljóst: við þurfum öll að grípa til tafarlausra aðgerða. Nú er kominn tími til að gera það sem þarf til að hefta losun og koma í veg fyrir óafturkræfar breytingar á loftslaginu.

Við erum öll sammála um markmiðið og vitum leiðina að því. Hún felst í því að bylta öllu orkukerfi heimsins og hætta að nota bensín, kol og olíu. Í staðinn þurfum við endurnýjanlega orku. Þetta er viðamikið verkefni og ekki einfalt, en það er skýrt.

Við Íslendingar erum komnir lengra en flestar aðrar þjóðir í orkuskiptum. Það er ekki afsökun fyrir aðgerðaleysi, heldur ætti þessi staðreynd miklu frekar að hvetja okkur til dáða. Á teikniborðinu eru ýmsir grænir virkjunarkostir og fjölmörg verkefni sem stuðla að raf- og rafeldsneytisvæðingu þess hluta orkukerfisins sem ennþá gengur fyrir bensíni og olíu. Við þurfum að velja okkur verkefni og framkvæma þau. Núna, ekki seinna.

Við erum í dauðafæri til að klára dæmið og verða fyrsta þjóðin í heiminum til að vera óháð jarðefnaeldsneyti. Við þurfum bara að láta verkin tala.

Haraldur er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Sjá meira


×