Fótbolti

De Gea óskað til hamingju með að vera hættur í landsliðinu þótt hann sé ekki hættur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David De Gea er ekki í náðinni hjá Luis Enrique, landsliðsþjálfara Spánar.
David De Gea er ekki í náðinni hjá Luis Enrique, landsliðsþjálfara Spánar. getty/Diego Souto

David De Gea, markverði Manchester United, brá nokkuð í brún þegar forseti spænska knattspyrnusambandsins óskaði honum til hamingju með að vera hættur í landsliðinu. Þótt De Gea hafi ekki komist í HM-hóp Spánar eru landsliðsskórnir ekki komnir á hilluna.

De Gea hefur ekki verið í náðinni hjá Luis Enrique síðan hann tók við spænska landsliðinu og var ekki valinn í 26 manna hóp sem tekur þátt á HM í Katar.

Svo virðist sem hæstráðendur hjá spænska knattspyrnusambandinu hafi þar með gert ráð fyrir að landsliðsferli De Geas væri lokið og þökkuðu honum vel unnin störf fyrir landsliðið.

De Gea er hins vegar ekki hættur með landsliðinu og var því steinhissa þegar heillaóskaskeytið barst.

Það verður þó að teljast ólíklegt að De Gea spili mikið meira fyrir spænska landsliðið, allavega meðan Enrique er við stjórnvölinn hjá því.

De Gea, sem er 32 ára, hefur leikið 45 leiki fyrir spænska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×