Þrír leikir fara fram á stórum leikvöngum í úrvalsdeild kvenna á laugardag og sunnudag. Þessir leikvangar eru vanalega aðeins notaðir af karlaliðum félaganna en það fer vonandi að breytast með mun meiri áhuga og betri mætingu á kvennaleikina.
Arsenal og Manchester United mætast á Emirates leikvanginum á morgun, laugardag, og verður leikurinn sýndur beint á Sky Sports.
Emirates tekur yfir sextíu þúsund manns í sæti en kvennalið Arsenal spilar heimaleiki sína vanalega á leikvangi Borehamwood Football Club, Meadow Park, sem tekur 4500 manns þar af 1700 í sæti.
Chelsea og Tottenham mætast á Stamford Bridge leikvanginum á sunnudaginn og verður leikurinn sýndur beint á BBC 1.
Stamford Bridge tekur yfir fjörutíu og eitt þúsund manns í sæti en kvennalið Chelsea spilar heimaleiki sína vanalega á Kingsmeadow vellinum sem tekur 4850 manns þar af 2265 manns í sæti.
Aston Villa og Reading mætast á Villa Park á sunnudaginn. Villa Park tekur yfir fjörutíu og tvö þúsund manns í sæti en kvennalið Aston Villa spilar heimaleiki sína vanalega á Bescot Stadium sem tekur yfir ellefu þúsund manns.