Margeir Sveinsson staðfestir í samtali við fréttastofu að öxi hafi verið beitt við árásina. Hann segist ekki hafa nákvæmar upplýsingar um líðan konunnar en telur að hún sé ekki í lífshættu. Hann segir lögregluna hafa óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir manninum.

Sögusagnir um skotárás fóru á flug
Skólastjóri Dalskóla, Helena Katrín Hjaltadóttir, vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband vegna málsins og vísaði í tölvupóst sem hún sendi foreldrum fyrr í dag.
Í póstinum, sem fréttastofa hefur undir höndum segir meðal annars:
„Kæru foreldrar og forráðamenn.
Nú er ljóst að atvik sem átti sér stað framan við Dalskóla seinni partinn i gær, beindist ekki gegn nemendum, starfsfólki eda skólanum sjálfum.
Lögregla telur að um einangrað tilvik sé að ræða og er ekki talin hætta á ferðum. Vegna sögusagna viljum við árétta að ekki var um skotárás að ræða.
Starfsfólk Úlfabyggðar brást hárrétt við í flóknum aðstæðum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Við munum, eins og ávallt, gera allt til að tryggja öryggi nemenda okkar.
Atvikið snertir tvö börn í skólanum og viljum við biðja foreldra að sýna nærgætni í umræðu um málið.“
Þá tekur hún fram að all nokkrir foreldrar og börn hafi orðið vitni að atvikinu. Verður boðið upp á samtal við skólasálfræðing og félagsráðgjafa í skólanum á morgun fyrir þá foreldra sem vilja nýta sér það.