Leikurinn byrjaði ekki alltof byrlega fyrir Valsmenn en gestirnir frá Grindavík mættu vel gíraðir til leiks og spiluðu góðan sóknarleik í bland við frábæran varnarleik í fyrsta leikhluta, staðan að honum loknum 16-26.

Íslandsmeistararnir rönkuðu við sér í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn niður í sex stig áður en gengið var til búningsherbergja í hálfleik.
Hvað sem sagt var í búningsklefa Vals virðist hafa virkað því liðið spilaði gestina sundur og saman í þriðja leikhluta. Grindvíkingar gátu vart keypt sér körfu og Valur var tíu stigum yfir þegar fjórði leikhluti hófst.

Þó Grindvíkingar hafi reynt hvað þeir gátu til að minnka muninn þá gekk það brösuglega og á endanum vann Valur sanngjarnan tíu stiga sigur, lokatölur 90-80 og Valsmenn á leið í undanúrslit.

Lawson hitti úr 8 af 9 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Frank Aron Booker og Kristófer Acox skoruðu báðir 13 stig í liði Vals.
Damier Erik Pitts var stigahæstur í liði Grindavíkur með 23 stig. Ólafur Ólafsson kom þar á eftir með 17 stig ásamt því að taka 12 fráköst.

Stjarnan hafði þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum. Síðar í kvöld kemur svo í ljós hvort Keflavík eða Njarðvík og KR eða Höttur fylgi Val í Laugardalshöllina.




