Kársnesbraut var lokað á milli Hábrautar og Sæbólsbrautar vegna bilunarinnar á meðan á viðgerð stóð en lokunin mun gilda fram eftir degi í dag vegna frágangs. Lögnin fór í sundur á 30 metra kafla.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Kópavogsbæjar.
Þar að auki er tekið fram að ástæða þess að lögnin hafi gefið sig sé til rannsóknar ásamt mögulegri bótaskyldu Vatnsveitu Kópavogs vegna bilunarinnar en lekinn olli tjóni við Marbakkabraut.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var rætt við par sem býr við Marbakkabraut. Húsið þeirra varð óíbúðarhæft vegna lekans. Öll íbúð þeirra var komin á flot þegar þau vöknuðu upp við vatnshljóð klukkan fimm í gærmorgun.
Þegar þau leituðu til bæjarins til þess að finna bráðabirgðahúsnæði var þeim bent á að leigja hótelherbergi. Parið á lítið bakland hérlendis og leitar að húsnæði.