Enski boltinn

Segir að De Bru­yne spili betur þegar reiður sé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kevin De Bruyne og Pep Guardiola á góðri stund, allavega fyrir annan þeirra.
Kevin De Bruyne og Pep Guardiola á góðri stund, allavega fyrir annan þeirra. Dave Howarth/Getty Images

Pep Guardiola, þjálfari Kevin De Bruyne hjá Manchester City, segir að Belginn spili hvað best þegar hann sé pirraður. De Bruyne mætti fúllyndur heim frá Katar eftir að Belgía féll úr leik í riðlakeppni HM en miðjumaðurinn sýndi sínar bestu hliðar í sigri á Liverpool í deildarbikarnum í liðinni viku.

De Bruyne og liðsfélagar hans hjá Belgíu áttu ekki sjö dagana sæla í Katar. De Bruyne lét ummæli falla í aðdraganda mótsins um aldurssamsetningu hópsins og segja má að þau hafi ekki fallið vel í kramið hjá samherjum hans.

Belgía átti svo vægast sagt erfitt uppdráttar á HM og féll snemma úr leik. De Bruyne hafði því nægan tíma til að leyfa fýlunni að byggjast upp fyrir leik Manchester City og Liverpool í enska deildarbikarnum. Miðjumaðurinn lagði upp tvö mörk í 3-2 sigri og hrósaði Guardiola honum eftir leikslok.

„Kevin, þegar hann spilar með þennan eldmóð innra með sér – hann þarf að finna eldmóðinn – þvílíkur leikmaður. Hann hefur verið hér í 7-8 ár og áorkað svo miklu, hann er goðsögn og einn besti leikmaður í sögu félagsins.“

„Ég þarf alltaf að ýta aðeins við honum, svo hann finni þennan eldmóð. Ég veit þetta eru margir leikir sem við spilum en þegar hann spilar svona í mikilvægum leikjum er hann óstöðvandi.“

Lærisveinar Guardiola heimsækja Leeds United þann 28. desember. Liðið þarf nauðsynlega á sigri að halda til að setja pressu á topplið Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×