Barcelona mætti nágrönnum sínum í Espanyol í fyrsta leik dagsins í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Með sigri hefðu Börsungar náð tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Barcelona komst yfir snemma leiks þegar miðvörðurinn Marcos Alonso skilaði knettinum í netið. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og var staðan 1-0 allt þangað til á 73. mínútu þegar Espanyol fékk vítaspyrnu.
Joselu skilaði knettinum í netið og staðan orðin 1-1. Bæði lið misstu menn af velli undir lok leiks þar sem Jordi Alba og Vinicius Souza fengu báðir sitt annað gula spjald og þar með rautt. Alls fór gula spjaldið 15 sinnum á loft í leiknum.
Barcelona fer með jafnteflinu á topp deildarinnar með 38 stig að loknum 15 leikjum, líkt og Real Madríd.