Benzema kom Real til bjargar í blá­lokin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Benzema skoraði tvívegis í kvöld.
Benzema skoraði tvívegis í kvöld. EPA-EFE/Petteri Paalasmaa

Spænska úrvalsdeildin í fótbolta er farin af stað eftir HM pásuna og lentu Spánarmeistarar Real Madríd í vandræðum gegn Real Valladolid í kvöld. Franski sóknarmaðurinn Karim Benzema bjargaði meisturunum með tveimur mörkum undir lok leiks, lokatölur 0-2.

Fyrri hálfleikur leiksins var líkt og að horfa á málningu þorna, staðan markalaus þegar flautað var til hálfleiks. Sá síðari var engin flugeldasýning og bæði lið ryðguð. Það var ekki fyrr en tæpar tíu mínútur voru til leiksloka þegar allt sauð upp úr.

Dæmd var vítaspyrna eftir að boltinn fór í hönd Javier Sanchez innan teigs. Leikmenn Valladolid voru ekki par sáttir og fékk Sergio Leon rautt spjald fyrir mótmæli sín. Þá fékk Joaquin Fernandez gult spjald.

Benzema lét þetta ekki á sig fá, steig upp og skoraði af öryggi. Staðan orðin 1-0 og áður en 90 mínútur voru komnar á klukkuna var staðan orðin 2-0 Real í vil. Benzema afgreiddi boltann þá snyrtilega í netið eftir sendingu Eduardo Camavinga og sá til þess að Real fer í hátíðarskapi inn í nýtt ár.

Með sigrinum fer Real á topp deildarinnar með 38 stig, stigi meira en Barcelona sem á þó leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira