Slysið varð um klukkan tvö síðdegis í gær, á Suðurlandsvegi við Öldulón og Fagurhólsmýri. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi segir í samtali við fréttastofu að tildrög slyssins séu til rannsóknar og ekkert fáist uppgefið um þau í bili. Þá hefur hann ekki fengið upplýsingar um líðan fólksins en það var allt með góð lífsmörk við flutning á sjúkrahús í gær.
Erlendir ferðamenn voru í öðrum bílnum og Íslendingar í hinum. Þá segir Oddur að ökumaður annars bílsins hafi verið Spánverji en ekki fást nánari upplýsingar um þjóðerni. Enn á eftir að taka skýrslu af fólkinu. Þá segir Oddur fólkið á nokkuð breiðu aldursbili. Sex voru í öðrum bílnum og þrír í hinum.
Oddur bendir jafnframt á að það hafi gefist afar vel að tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafi verið tiltækar til að flytja fólkið, auk flugvélar á Höfn. Þegar svo fjölmennt slys verði á svona afskekktu svæði séu heilbrigðisstofnanir ekki í stakk búnar til að taka á móti sjúklingunum. Þá hafi fólkið enn fremur viljað fylgjast að. Starfsfólki bráðamóttökunnar í Reykjavík hafi þó vissulega brugðið að fá svo stóran hóp til sín í einu.
Eins og áður segir eru tildrög slyssins til rannsóknar. Suðurlandsvegi var lokað vegna slyssins en mikil hálka var á veginum þegar slysið varð.