Brighton & Hove Albion vann afar öruggan þriggja marka sigur á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag og lyfti sér þar með upp fyrir Liverpool í töflunni.
Heimamenn tóku öll völd á vellinum snemma leiks en ekkert mark var þó skorað í fyrri hálfleiknum.
Strax í upphafi síðari hálfleiks eða á 47.mínútu kom Solly March Brighton í forystu og hann var aftur á ferðinni sex mínútum síðar og staðan orðin 2-0, heimamönnum í vil og ekki hægt að segja annað en að það hafi verið sanngjarnt miðað við gang leiksins.
Jurgen Klopp gerði fjórfalda skiptingu á 69.mínútu en það hjálpaði gestunum lítið. Þvert á móti jók Danny Welbeck forystuna fyrir heimamenn með marki á 81.mínútu og gulltryggði sínu liði stigin þrjú.
Annað tap Liverpool í deildinni í röð og er liðið nú komið niður í 8.sæti.