Skoðun

Heim­greiðslur fyrir hafn­firska for­eldra

Kristín Thoroddsen skrifar

Góð þjónusta við barnafjölskyldur er mikilvæg til að bæjarfélag vaxi og dafni í takt við þróun samfélagsins. Í Hafnarfirði er lögð rík áhersla á góða þjónustu við bæjarbúa bæði unga sem aldna og er val íbúa um fjölbreyttar leiðir þar mikilvægt. Góð og gagnleg umræða um fyrstu fimm ár barnsins hefur verið í samfélaginu þar sem bent hefur verið á mikilvægi þess að foreldrar verji meiri tíma með ungum börnum sínum og vinni að góðri tengslamyndun. Eftir að fæðingarorlofi foreldra líkur er mikilvægt að foreldrar hafi val um fjölbreyttar leiðir fyrir börn sín sem hentar hverjum og einum þar til barnið hefur fengið boð um leikskólapláss.

Til að auka val foreldar og tryggja fjölbreyttar leiðir hefur Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkt heimgreiðslur til foreldrar eftir að fæðingarorlofi þeirra líkur, frá 12 mánaða til 30 mánaða aldurs eða þar til barn fær pláss hjá dagforeldri eða hefur skólagöngu í leikskóla. Upphæð niðurgreiðslunnar er sú sama og fylgir barni hjá dagforeldri. Við teljum að með þessu séum við að styrkja barnafjölskyldur, bjóða uppá fjölbreyttar leiðir og leggja okkar að mörgum við að efla enn frekar tengslamyndun barns og foreldris hafi þeir möguleika til að vera lengur heima með börnum sínum.

Niðurgreiðsla til dagforeldra hækkuð

Dagforeldrar sinna mikilvægu og góðu starfi en í Hafnarfirði eru starfandi 26 dagforeldrar. Dagvistun hjá dagforeldrum er ávallt val foreldra og því mikilvægt að styðja vel við starfsumhverfi þeirra. Hafnarfjarðarbær hefur nú þegar samþykkt stofnstyrk til dagforeldra til að styrkja starf þeirra sem gera samning við bæjarfélagið. Með þessu er vonast til að enn fjölgi í hópi dagforeldra í stækkandi bæjarfélagi. Um áramótin hækkaði niðurgreiðsla til dagforeldra um 23% en það er liður í því að standa með barnafjölskyldum í Hafnarfirði.

Áfram verður unnið að því að styrkja dagvistunarúrræði í Hafnarfirði meðal annars með því að auka sveigjanlegan vistunartíma, samhliða því er unnið að þróun og endurskoðun leikskólastarfsins, börnum og starfsfólki til heilla.

Höfundur er formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar.




Skoðun

Sjá meira


×