Rannsókn málsins hófst formlega í gær samkvæmt upplýsingunum frá saksóknara í París eftir að skýrsla um framkomu Le Graët barst.
Ákveðið var að rannsaka Le Graët eftir að umboðsmaðurinn Sonia Souid sakaði hann um óviðeigandi hegðun yfir nokkurra ára tímabil. Souid er meðal annars með nokkra leikmenn franska landsliðsins á sínum snærum.
Ekki er langt síðan Le Graët komst í fréttirnar fyrir að segja að hann myndi aldrei svara símtali frá Zinedine Zidane um að verða þjálfari franska landsliðsins. Í kjölfarið var hann settur til hliðar sem forseti franska knattspyrnusambandsins af stjórn þess.
Varaforsetinn Philippe Diallo tók tímabundið við stjórnartaumunum í franska knattspyrnusambandinu eftir að Le Graët var settur til hliðar. Afar ólíklegt verður að teljast að hinn 81 árs Le Graët eigi afturkvæmt í forsetastólinn, sérstaklega eftir nýjustu fréttir.