Þetta kemur fram á vef KSÍ í dag. Það var nefnilega ekki nóg með að Valur væri með tvo ólöglega leikmenn heldur var lið Fram einnig ólöglega skipað því einn leikmanna liðsins, Auður Erla Gunnarsdóttir, spilaði leikinn þrátt fyrir að vera skráð í Hamar.
Hjá Val voru þær Glódís María Gunnarsdóttir og Birta Ósk Sigurjónsdóttir með þrátt fyrir að vera skráðar í KH.
Á vef KSÍ er vísað í ábendingar sem sendar voru til þátttakenda í Reykjavíkurmóti þess efnis að lið með ólöglegan leikmann teljist hafa tapað leik 0-3 nema að liðið hafi tapað með enn stærri mun, þá skuli sú markatala ráða.
Hins vegar kemur ekkert fram í þessum reglum um hvað gerist ef bæði lið eru ólöglega skipuð og á vef KSÍ segir einfaldlega að úrslit leiksins standi.
Félögin sem um ræðir fá hins vegar sekt í samræmi við reglugerð og nemur sekt Vals 90.000 krónum en sekt Fram 60.000 krónum.
Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði fernu í leiknum, Valgerður Gríma Sigurjónsdóttir þrennu, Þórdís Elva Ágústsdóttir og Eva Stefánsdóttir tvö mörk hvor, og þær Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir og Bryndís Eiríksdóttir eitt mark hvor.
Valur og Fram eru í riðli með Víkingi og Fylki en Fylkiskonur unnu Víking 3-1 á föstudaginn. Fram mætir næst Fylki á fimmtudaginn á Framvelli en Valur tekur á móti Víkingi á Hlíðarenda á föstudaginn.