Eins og fjallað var um hér á Vísi í gær skrifaði Sara langa grein á vef The Players Tribune þar sem hún greinir frá því að hún hafi ekki notið stuðnings fyrrum vinnuveitenda síns á meðan hún var ófrísk. Félagið hafi ekki greitt henni full laun á meðan hún gekk með barnið og þá hafi henni verið hótað að hún myndi ekki eiga neina framtíð hjá félaginu ef hún færi með málið til FIFA.
Í kjölfar greinarinnar sem Sara skrifaði birti Lyon svo fréttatilkynningu þar sem félagið svarar gagnrýni hennar og segist hafa gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til að styðja við bak landsliðsfyrirliðans fyrrverandi.
Þrátt fyrir að segjast hafa gert allt sem félagið gat til að styðja við bakið á Söru hefur Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hins vegar skikkað Lyon til að greiða henni full laun fyrir þann tíma sem hún var barnshafandi. Í grein sinni sagði Sara að þetta snérist ekki bara um viðskipti, heldur um réttindi hennar sem starfsmanns, sem konu og manneskju.
Ég vil vera viss um að enginn þurfi að ganga í gegnum það sama og ég aftur. Og ég vil að Lyon viti að þetta er ekki í lagi. Þetta snerist ekki „bara um viðskipti.“ Þetta snýst um réttindi mín sem starfsmanns, sem konu og manneskju.
„Gríðarlega mikilvægt fyrir knattspyrnukonur og kvennaboltann í heild“
Leikmannasamtökin FIFPRO sendu Söru svo hamingjuóskir á Twitter-síðu sinni í gær þar sem samtökin segja að sigur Söru sé tímamótasigur í réttindum leikmanna um fæðingarorlof.
„FIFPRO óskar Söru Björk Gunnarsdóttur til hamingju með árangursríka málsókn hennar á hendur Olympique Lyonnais eftir að félagið greiddi henni ekki full laun á meðan hún var ófrísk,“ segir í færslu FIFPRO.
„Við erum ánægð með að hafa aðstoðað hana við að hafa unnið sigur í fyrsta máli sinnar tegundar frá því að ný reglugerð FIFA varðandi fæðingarorlof tók gildi í janúar árið 2021.“
„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir knattspyrnukonur og kvennaboltann í heild að þetta lögboðna fæðingarorlof hafi bæði verið sett á og að því sé framfylgt á alþjóðavísu.“
Sara Bjork Gunnarsdottir’s landmark ruling against former club Olympique Lyonnais sends a clear message to clubs and footballers worldwide:
— FIFPRO (@FIFPRO) January 17, 2023
The strict application of maternity rights is enforceable.
🔗 https://t.co/SmInzY0xBs pic.twitter.com/aXd4zbazFm