Ákæra í málinu er mjög ítarleg og má þar sjá að í fórum mannsins hafi fundist þúsundir mynda og myndskeiða, meðal annars myndir af nauðgunum á „mjög ungum börnum“ líkt og þar segir.
Fyrirtaka í málinu var á öðrum degi ársins. Fram kemur í ákærunni að barnaníðsefni hafi fundist í síma mannsins sem hann hafi verið með á sér þegar hann var handtekinn vegna umferðarlagabrotsins á Akureyri í júní 2019. Dvalarstaður mannsins á þessum tíma hafi verið sumarhús á Akureyri. Á heimili hans, annars staðar á landinu, fundust svo annar sími og spjaldtölva þar sem einnig var að finna barnaníðsefni.
Maðurinn hafði þá skoðað og hlaðið niður efninu nokkru áður en hann var handtekinn, auk þess að hafa dreift klámfengnum teikningum af börnum til ótilgreindra aðila.
Þúsundir mynda og hreyfimynda
Í símum og spjaldtölvu mannsins fannst mikið magn mynda, hreyfimynda og teiknaðra mynda sem sýndu meðal annars ung stúlkubörn – allt frá ungabörnum og að börnum á táningsaldri – í kynferðislegum athöfnum með karlmönnum. Hafi þau meðal annars verið láta veita mönnum munnmök, mennirnir sett fingur í leggöng þeirra eða þeir brotið á þeim á annan hátt. Sömuleiðis hafi fundist myndir af börnunum í klámfengnum stellingum eða með kynlífstæki.

Á Telegram-reikningi mannsins fundust 1.574 stuttar hreyfimyndir sem sýndu meðal annars ungum börnum nauðgað og 18.810 myndir af kynferðislegum toga og sýndi fjöldi þeirra mjög ung börn í kynferðislegum athöfnum með fullorðnum.
Flutti til útlanda
RÚV hefur eftir Eyþóri Þorbergssyni, aðstoðarsaksóknara hjá embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra, að rannsókn hafi tekið nokkurn tíma sökum umfangs efnisins.
Þá hafi maðurinn flutt til útlanda og unnið á sjó á meðan á rannsókninni stóð. Honum var birt ákæra í málinu í mars síðastliðinn.
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar og jafnframt að símarnir tveir og spjaldtölvan verði gerð upptæk.