Ari Skúlason, formaður samtakanna, skrifar færsluna en hann segir samninganefndina hafa eytt „mörgum tilgangslausum dögum í samningaviðræður við bankana.“ Það sem eftir stendur er tilboð um 6,75 prósenta launahækkun með 66 þúsunda króna þaki og hækkun fyrir tvö starfsheiti um 7,2 prósent.
Launahækkun upp á 6,75 prósent myndi að sögn Ara skila sér í 5,8 prósenta kostnaðarauka fyrir bankana þar sem tæplega helmingur starfsmanna fær skerta launahækkun.
„Sum okkar heyrðu forstjóra Haga kvarta yfir íþyngjandi 10-12% launahækkunum á uppgjörsfundi í vikunni. Forsvarsmenn veitingageirans tala um yfir 10 prósenta launahækkanir. Hver eru rökin fyrir því að bankarnir sleppi með undir 6 prósent, varla eru þeir á vonarvöl eftir góðan hagnað undanfarin ár,“ segir Ari.
Samninganefndin hefur ítrekað reynt að ná fram lágmarshækkun fyrir lægstu hópana í launakerfinu en Ari bendir á að tilboð bankanna feli í sér 28 þúsunda króna launahækkun fyrur nýlega sem eru rúmlega 40 prósent af 66 þúsunda hámarkshækkun.
„Bankarnir treysta sér ekki til þess að hækka lægstu launin meira þó að það hafi verið gert í öðrum samningum,“ segir hann. „Boð bankanna var upp á 7,2 prósenta hækkun fyrir tvo flokka, ekki þann lægsta. Bankarnir vilja ekki gera betur. Eigum við það skilið?“
Þá lagði samninganefndin til að vikulegur vinnutími styttist um 20 mínútur til viðbótar við þá 45 mínútna styttingu sem er nú þegar í gildi. Að mati nefndarinnar samsvaraði það 0,9 prósenta hækkun launakostnaðar en því var alfarið hafnað af bönkunum.
Hver eru rökin fyrir því að bankarnir sleppi með undir 6 prósent, varla eru þeir á vonarvöl eftir góðan hagnað undanfarin ár
„Þegar allt var talið vorum við að tala um kostnað við framlengingu samnings upp á rúm 7 prósent sem er mun lægra en kostnaður við aðra samninga. Bankarnir höfnuðu því alfarið,“ segir Ari.
Reiknað er með að næsti fundur viðsemjenda verði þriðjudaginn 24. Janúar en fyrir fundinn mun stórn SSF funda með formönnum aðildarfélaga.
„Við höfum hins vegar komist rækilega að því hvar hugur bankanna og annarra viðsemjenda SSF liggur varðandi kjarabætur fyrir starfsmenn sína og að ekki er mögulegt að ná árangri með rökum eða fortölum.“