Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi rétt eftir hádegi. Ljóst sé að deilan milli Eflingar og SA og Eflingar og sáttasemjara sé í hörðum hnút.
„Það hefur legið fyrir töluvert lengi að þessi deila er í töluvert hörðum hnút. Þessi verkfallsboðun staðfestir þann hnút,“ segir Katrín en verkfallsboðun Eflingar á Íslandshótelum var samþykkt af félagsfólki í gær og boðað hefur verið til frekari verkfalla.
„Það eru engar gleðifregnir því auðvitað er æskilegast að aðilar geti náð saman um einhverjar lausnir eins og hefur gengið annars staðar á vinnumarkaði. Þetta er staðan, hún er mjög þung,“ segir Katrín.
Hún beri fullt traust til Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.
„Það geri ég. Það liggur fyrir að þessi miðlunartillaga hefur verið lögð fram. Ég er ekki til þess fallin að meta nákvæmlega lögmæti hennar en eins og málið horfir fyrir mér og þeim sérfræðingum sem ég hef ráðfært mig við þá stenst hún skoðun. Nú verður að koma í ljós hvað kemur út úr öllum þessum kærumálum,“ segir Katrín.
Hlusta má á viðtalið við Katrínu í spilaranum að neðan.