Forsetinn, Petr Pavel er fyrrverandi hershöfðingi hjá Nato og í viðtali við BBC segir hann að Úkraínumenn verði tilbúnir til inngöngu í Nato um leið og stríðinu lýkur, jafnt tæknilega sem siðferðilega.
Pavel talar einnig fyrir auknum stuðningi við Úkraínumenn í stríðinu og segir litlar sem engar takmarkanir ættu að vera á þeim hergögnum sem vesturlönd senda Úkraínumönnum. Bandaríkjamenn neituðu á dögunum að senda F-16 orrustuþotur til Úkraínu en Pavel segir að slíkt væri engin goðgá, en hann sagðist þó efast um að það væri tæknilega hægt innan þess tímaramma sem Úkraínumenn hafa nefnt.
Pavel gefur einnig lítið fyrir þau rök að aukinn hernaðarstuðningur við Úkraínu væri einskonar stigmögnun á stríðinu. Hershöfðinginn fyrrverandi segir enga aðra lausn í stöðunni. Ef Úkraínumenn verði ekki aðstoðaðir munu þeir tapa stríðinu og þá tapi allir.