Eins og sést á mynd sem slökkvilið höfuðborgarsvæðisins birti eftir eldsvoðann þurftu liðsmenn þess að fara upp á þak vagnsins til að ráða niðurlögum eldsins. Unnið var að slökkvistarfi fram eftir morgni 21. janúar og strax lá fyrir að staðurinn væri tjónaður.

Hagavagninn, sem opnaður var árið 2018 og er eitt af helstu kennileitum Vesturbæjar, hefur staðið lokaður síðan. Frá honum leggur enn daufa brunalykt sem finnst vel þegar gengið er fram hjá. Og margir fastagestir Vesturbæjarlaugar hafa eflaust velt fyrir sér síðustu daga hvenær, eða yfirleitt hvort, vagninn verði opnaður á ný.
Jóhann Guðlaugsson eigandi Hagavagnsins segir í samtali við Vísi að vissulega sé stefnt að því að opna Hagavagninn aftur. Staðurinn hafi hins vegar skemmst mikið í brunanum, sem sést vel þegar litið er inn um glugga vagnsins, og lagfæringar muni taka tíma. Erfitt sé að meta hversu langan tíma; tvo til þrjá mánuði, jafnvel, segir Jóhann.
Gestir Vesturbæjarlaugar þurfa því að hafa þolinmæðina í öndvegi næstu vikur. Ljóst er að einhver bið verður á því að þeir geti gætt sér á hamborgara samhliða dýfu í laugina.

