Beiðni um aðstoð barst frá sex tonna bát í gærkvöldi og var björgunarskipið Oddur V Gíslason í Grindavík ræst út rétt fyrir miðnætti. Fimm manna áhöfn mannaði skipið og kom skipið að bátnum rétt fyrir klukkan tvö í nótt.
Með aðstoð áhafnar Odds V tókst að koma vél bátsins í gang og sigldi hann þá fyrir eigin vélarafli. Oddur V fylgdi honum áleiðis, en stefnan var tekin til Grindavíkur.
Klukkan þrjú í nótt drapst vélin aftur og var þá ákveðið að taka hann í tog. Siglingin tók dágóða stund en Oddur V kom til hafnar í Grindavík klukkan rétt rúmlega sjö í morgun með bátinn í togi.