Að neðan má sjá myndskeið frá vettvangi sem Egill Aðalsteinsson tökumaður okkar tók.
Tilkynnt var um gróðureld nærri Óttarsstöðum í Straumsvík um klukkan 13:00 í dag. Þorsteinn Gunnarsson, aðstoðarvarðstjóri í aðgerðastjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir að tuttugu til þrjátíu slökkviliðsmenn glími nú við eldinn.

Eldurinn sé ekki mikill en útbreiddur. Svæðið sé erfitt yfirferðar, gróft hraun og mói, og fátt sé um stíga til að keyra. Slökkvistarf sé í gangi og ekki útséð um hvenær náist að ráða niðurlögum eldsins.
„Við erum komin með aðstoð frá Landsbjörg og ríkislögreglustjóra, hitamyndavélar og annað. Það er töluverð starfsemi í gangi,“ segir Þorsteinn.

Hann segir minni hús á svæðinu en ekki sé talið að þau séu í hættu. Litlir gamlir kofar hafi orðið eldi að bráð en ekki hafi verið nein verðmæti í þeim.

Snjóbílar, svokallaðir Högglundar, frá Landsbjörg eru nú komnir á staðinn. Þeir eiga að þjappa niður jarðveg og flytja búnað og dælur að þeim stöðum þar sem eldurinn logar.



